Hátíðlegt fennel- og perusalat með sprettum, gráðost og piparkökum
Ef ykkur langar að bera fram jólalegt, bragðgott og einfalt salat með hátíðarmatnum er vel hægt að mæla með þessu salati. Það er ekki flókið að setja það saman og það passar með nánast öllum jólamat. Það er líka hægt að snæða það eitt og sér. Það eru einhverjir töfrar við það að setja saman gráðost, piparkökur og perur. Við finnum bragð af jólunum þegar þessi samsetning á sér stað.
2 box VAXA salatblanda
1 stórt fennel
1 pera
½ sítróna
1 handfylli fersk mynta eða steinselja frá VAXA
50-80 g gráðostur, brotinn í litla bita
¼ bolli ristaðar valhnetur, gróft hakkaðar
1-2 msk. granateplakjarnar og/eða þurrkuð trönuber
3–4 piparkökur, muldar gróft yfir rétt áður en salatið er borið fram
Balsamik gljái, ólífuolía og piparkorn eftir smekk
Aðferð:
Byrjið á því að rista valhnetur og skerið í grófa bita.
Skerið fennel þunnt á mandolíni eða í þunnar sneiðar.
Skerið peru þunnt á mandolíni eða í þunnar sneiðar.
Kreistið hálfa sítrónu yfir peruna svo hún verði ekki brún.
Takið til stóran sléttan disk og setjið glas í miðjuna.
Raðið salati í kringum glasið.
Dreifið fenneli, perum, kryddjurtum, gráðostabitum og valhnetum ofan á salatið.
Því næst setjið granatepli, trönuber og spretturnar jafnt yfir.
Hellið svo balsamikgljáa, ólífuolíu og pipar eftir smekk.
Rétt áður en þið berið salatið fram dreifið þá piparkökubrotunum yfir og takið glasið af.